Nesskóli í Evrópu
Undanfarin tvö ár hefur Nesskóli tekið þátt í samstarfsverkefni með skólum í þremur öðrum löndum: Eistlandi, Lettlandi og Danmörku. Verkefnið nefnist STEM through 21st century skills. STEM er skammstöfun fyrir ensku orðin Science (vísindi) – Technology (tækni) – Engineering (verkfræði) og Math (stærðfræði). Samstarfsverkefni sem þetta gengur út á heimsóknir milli skóla með nemendur, nemendur okkar heimsóttu því 3 lönd og svo tókum við á móti nemendum einu sinni. Hvert land fékk síðan sinn bókstaf sem þema. Fyrsta vinnulotan fór fram í Eistlandi í desember 2017 en þangað héldu greinarhöfundur (Eysteinn Þór Kristinsson), Þórfríður S. Þórarinsdóttir kennari og sex nemendur úr núverandi 10. bekk. Þema þeirrar heimsóknar var essið í STEM, eða vísindi. Í apríl fyrir ári síðan komu nemendur hingað og þá var Té-ið tekið fyrir, í Lettlandi var það verkfræðin og síðasta lotan, stærðfræðin, fór fram í Esbjerg í lok febrúar s.l. Grímur Magnússon var mér til aðstoðar í Lettlandi og í lokalotunni þær Sigríður Helga Ármannsdóttir og Sigrún Júlía Geirsdóttir. Það er skemmst frá því að segja að allar vinnuloturnar gengu frábærlega vel. Hver vinnulota stóð yfir í eina kennsluviku og nemendum okkar fannst þær allt of fljótar að líða!
En hvað er Erasmus+, hvað eru 21st century skills og af hverju erum við að þessu? Erasmus+ er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins, hún styður m.a. við menntastofnanir og einnig íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Skólar hafa möguleika á tvenns konar verkefnum. Annarsvegar samstarfsverkefnum milli skóla og einnig geta þeir sent starfsfólk á námskeið erlendis. Við í Nesskóla höfum verið þátttakendur í báðum tegundunum undanfarin tvö ár. Auk samstarfsverkefnisins hafa sex kennarar farið á námskeið, bæði til Grikklands og Ítalíu.
Skólastarf hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, verkefni skólanna er m.a. að mennta nemendur til starfa sem enn eru ekki til! Í þessu samhengi hefur verið talað um tuttugustu og fyrstu aldar nemandann og þá færni eða hæfni sem hann þarf að tileinka sér. Tuttugustu og fyrstu aldar færni er færni, hæfileikar og afstaða til náms sem eru talin lykill að velgengni í samfélagi 21. aldar. Ýmsir færniþættir hafa verið nefndir til sögunnar sem 21. aldar færni. Meðal þeirra þekktustu eru hin „fjögur C“: samvinna (collaboration), samskipti (communication), gagnrýnin hugsun (critical thinking) og sköpunarhæfni (creativity).
STEM through 21st century skills verkefnið okkar endurspeglar vel þessa færniþætti. Nemendur vinna saman í fjölþjóðlegum hópum, samskiptin fara fram á ensku, þeir þurfa að leysa hin ýmsu verkefni, beita sköpunarhæfni sinni og gagnrýninni hugsun við úrlausn þeirra.
Í lokin má geta þess að Nesskóli er þátttakandi í tveimur umsóknum til næstu tveggja ára og vonandi verður framhald á þátttöku okkar í Evrópusamstarfi.