Febrúarmánuður

Nemendur sem tóku þátt í upplestrarkeppni Nesskóla 2023 - 2024
Nemendur sem tóku þátt í upplestrarkeppni Nesskóla 2023 - 2024

Það má svo sannarlega segja að febrúarmánuður hafi verið fullur af fjöri í Nesskóla. Ásamt fjöri þá erum við ákaflega stolt af okkar fólki og börnum.

Fyrir áramót var Fanney Ósk Sveinbjörnsdóttir í 8.SHÁ kosin í Ungmennaráð heimsmarkmiðanna. Meginmarkmið Ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Hægt er að lesa meira um Ungmennaráðið hérna.Einnig er hægt að fylgjast með Ungmennaráðinu hérna á instagram.

Fanney Osk 

 

Amnesty kíkti í heimsókn til okkar með fræðslu fyrir mið- og unglingastig. Fræðsla hjá Amnesty Internati­onal og mann­rétt­indi. Þar er fjallað um upphaf og starf­semi samtak­anna, mann­rétt­indi og mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingu Sameinuðu þjóð­anna ásamt því hvernig nemendur geta gripið til aðgerða og tekið þátt í mann­rétt­inda­bar­átt­unni.

Níundi árgangur barnabóka í Nesskóla er kominn út. Í desember vinna nemendur í 10. bekk verkefni í íslensku þar sem þeir skrifa, myndskreyta og hanna barnabók frá grunni. Sex bækur voru skrifaðar í ár og bætast við safnið sem nú telur 45 eintök af skemmtilegum barnabókum sem nemendur mega vera stoltir af. Bækurnar eru geymdar í Nesskóla.  Í byrjun janúar fóru nemendur í 10. bekk í heimsókn á leikskólann Eyrarvelli og lásu fyrir elstu nemendur sem hlustuðu af athygli. 

10.VG barnabækur 

10.VG barnabækur

 

Nemendur í 4.HIG voru með sal og sýndu fyrir allt yngsta stig, foreldra og aðstandendur. Sýndu þau myndband sem þau voru búin að taka upp og vinna, ásamt lögum. Sungu þau Gamla Nóa úr áramótaskaupinu og Krumla með Ice Guys.

Nemendaþing voru á unglinga- og miðstigi þar sem umræðuefnin voru einkunnagjöf, próf, breyting á skipulagi á matsal, Naglasúpan, breyting á opnunartíma sundlaugarinnar, starfsemi Atóm og mikilvægi þess að viðhalda góðum lestri. Var þetta í fyrsta skipti sem nemendaþing er haldið í skólanum þar sem nemendur fá rödd og vettvang til að koma sínum hugmyndum á framfæri. Út frá þessari vinnu verður haldið Skólaþing þar sem foreldrum verður boðið að koma og taka þátt í umræðu og lausnum á ákveðnu málefni. Frekari upplýsingar koma þegar nær dregur. Hægt er að sjá myndir frá nemendaþingunum hérna.

Miðstig og unglingastig eru búin að fara í sínar fjallaferðir í Oddsskarð. Þetta árið var ákveðið að stigin færu hvert fyrir sig fjallið í stað þess að allur skólinn færi í einu, eins og venjan hefur verið undanfarin ár. Hefur þetta fyrirkomulag reynst vel og sjáum við fram á að það sé komið til að vera, enda með þessu móti fá allir að njóta okkar fallega útivistarsvæðis. 

Upplestrarkeppni hjá 7. bekkjar var haldin í gær, fimmtudaginn 29.febrúar við hátíðlega athöfn. Stóra upplestrarkeppnin er haldin ár hvert í Fjarðabyggð eins og fleiri stöðum á landinu. Undankeppnir eru haldnar í hverjum skóla fyrir sig þar sem dómnefnd velur fulltrúa til að keppa í upplestri fyrir hönd síns skóla í stóru keppninni sem haldin er í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Fulltrúar Nesskóla verða Júlía Fanney S. Jóhannsdóttir, Blær Ágúst Gunnars og Eva Sól Heimisdóttir varamaður.

Upplestrarkeppnin 

Upplestrarkeppnin

Það sem er framundan hjá okkur er: Góugleði, Kardemommubærinn, árshátíð yngsta stigs og Skólaþing. Ásamt fullt af skemmtilegum hlutum sem verða kynntir í næsta fréttabréfi.