Fimmtudaginn 8. september fóru 56 krakkar af unglingastigi ásamt sex starfsmönnum í Stórurð.
Rútuferðin lá um Hróarstungu vegna vegagerðaframkvæmda og þar gafst krökkunum kostur á að skoða nýtt umhverfi.
Við fórum Njarðvíkurleiðina í Stórurð og hófum göngu í lítilsháttar þokuslæðingi.
Brátt birti til og dagurinn varð allur hinn stórkostlegasti í sól og logni.
Allir gengu alla leið, enginn meiddist og einstaka stórhugi skellti sér meira að segja út í ískalt vatnið.
Ógleymanlegur dagur.
Yngsta stigið fór í haustgönguna síðasta dag ágústmánaðar. Við fórum með rútu upp Oddskarðið og gengum niður að Höllustein, þar sem þjóðsagan um Höllu var lesin fyrir þau. Sagan segir frá ófrískri konu, sem gengur frá Reyðarfirði til Norðfjarðar af því að hún fær ekki gistingu þar. Á leiðinni yfir Skarð fær hún hríðar og hrekst undan hríð og stórviðri þar til hún kemst í skjól við steininn sem nefndur er í höfuðið á henni, þar eignast hún barnið og vefur það klæðum sínum. Þegar farið er að leita hennar finnst hún við steininn látin og deyr barnið skömmu síðar. Hægt var að rekja blóðslóð Höllu þar sem nú eru Blóðbrekkurnar á Skarðinu. Krakkarnir hlustuðu með athygli á söguna og borðuðu nestið sitt. Síðan héldum við áfram niður í Seldal með smá útútdúr, þar sem við vorum komin lengri leið en við ætluðum að fara, en það kom ekki að sök, við tókum bara aftur nesti. Við gengum framhjá Seldalsánni að rútunum sem biðu eftir okkur þar. Þetta er mjög þægileg leið, öll niður í móti og voru krakkarnir flest mjög dugleg að ganga.