Þá er Janúar búinn og svo sannarlega mikið búið að gerast í skólanum. 78 samtökin komu og voru með fræðslu fyrir 3.ÞEH, 6.HB og 9.SJG. Er það partur af samvinnu Fjarðabyggðar og 78 samtakana Fræðsla var einnig fyrir foreldra og þökkum við þeim foreldrum sem komu á þá fræðslu kærlega fyrir komuna. Virkilega þörf og flott fræðsla sem við fengum í byrjum árs.
Bæjarstjórinn okkar hún Jóna Árný Þórðardóttir kom til að ræða við unglingana okkar. Voru þau öll vel undirbúin og voru með vandaðar og flottar spurningar til Fjarðabyggðar sem brennur á vörum unga fólksins okkar.
Skólastarfið hélt líka áfram eftir áramót og má þar nefna 1.KSS sem hefur ferðast með hryssunni Blesu hringin í kringum landið í Byrjendalæsi. Þau komu við á ýmsum stöðum og fræddust um þá. Soppuðu meðal annars í Reykjavík og skoðuðu helstu kennileitin þar. Þetta er þeirra Reykjavík.
Nemendur í 9. SJG fengu það fallega verkefni að skrifa jákvæða staðreynd um bekkjarfélaga sína. Hver nemandi skrifaði falleg orð um alla 25 bekkjarfélaga sína. Kennarinn safnaði svo öllu saman og útbjó skjöl sem hver og einn fékk með sínu nafni og umsögnum. Þegar skjölunum var útdeilt mátti sjá bros á hverju andliti og nemendum þótti gaman að sýna sitt og sjá hjá öðrum.Verkefnið er liður í því að styrkja jákvæðan bekkjaranda og voru nemendur sammála um að vel hefði tekist til. Köllum við verkefnið Verkefni sem gleður.
Þorrablót yngsta stigs var haldið föstudaginn 2.febrúar. Þorrablót er hefð sem hefur haldið sér í tugi ára í Nesskóla. Þá gera nemendur og starfsfólk sér víkingakórónur, hittast á sal og syngja nokkur þorralög með undirspili frá tónmenntakennara, Noémi Alföldi. Oft erum við nokkuð þjóðleg á þessum degi og mætum í prjónaflíkum eða öðru sem okkur finnst vera þjóðlegt. Margir kennarar nýta tækifærið og kenna nemendum um þorrann og öll þau orð og sögu sem fylgja þeim mánuði. Í ár breyttum við aðeins til og buðum 10.VG að taka þátt með yngsta stigi og kennaranum þeirra í þeim tíma sem Þorrablótið var henni Sigrúnu Júlíu að stjórna fjöldasöngnum. Heppnaðist dagurinn virkilega vel og hlökkum við til næsta þorrablóts eftir ár.
Í þessari viku er áætlað að fara í fjallaferð upp á Oddsskarð. Mælum við með því að fylgjast vel með pósti þessa vikuna.