Kjarval, Alþingi og vetrarfrí

Það er víst alltaf nóg um að vera í skólanum og er engin breyting á því þessa vikuna.

Starfsmenn fengu kynningu á Lýðheilsu Hinsegin barna í vikunni. Fóru nokkrir kennarar á þá kynningu en til að það væri hægt fengu bekkir á unglingastigi að fara fyrr í skólanum. Við fögnum ávallt námskeiðum og kynningum sem þessum sem nýtist okkur í starfi. En þetta var ekki eina fræðslan sem var í þessari viku því fulltrúi krabbameinsfélags Fjarðabyggðar kom og fræddi starfsfólk um starfsemi félagsins og hversu mikilvægur partur skólasamfélagið er þegar einstaklingur greinist með krabbamein. Skólasamfélagið er þó bara einn partur af mörgum sem koma að einstaklingum og er mikilvægt að minna okkur á mikilvægi allra þegar kemur að veikindum sem þessum.

Nemendur á unglingastigi hittust á sal þriðjudaginn 15. Október þar sem frambjóðendur í umgmennaráð Fjarðabyggðar héldu kosningaræður sínar. Eftir ræður var hægt að kjósa sinn fulltrúa. Er mikil spenna að fá að vita hverjir komist í ráðið að þessu sinni..

1. og 7. bekkur fóru á Egilsstaði miðvikudaginn 16. Október til að sjá sýninguna um Kjarval. Sýningin er virkilega skemmtileg og allt utanumhald um hana með eindæmum gott. Leikarar héldu athygli nemenda allann tímann og allir komu glaðir heim. Virkilega vel að þessu staðið og erum við afskaplega þakklát þegar nemendur okkar fá menningarupplifun sem þessa.

17. október komu tveir fræðslustjórar frá Alþingi Íslands til að fræða nemendur í 9. og 10. bekk um vinnulag Alþingis.

Unnið var með hvorum bekk fyrir sig. Eftir stutta myndbandskynningu var bekkjunum skipt í fjóra “stjórnmálaflokka” mis stóra. Valið stóð á milli tveggja frumvarpa, annars vegar hvort taka ætti upp herskyldu á Íslandi og hins vegar hvort taka ætti upp strangari reglur um kattahald í landinu.

Eftir að kosið hafði verið um frumvarp mæltu ”þingmenn” fyrir frumvarpinu og hófu umræður. Farið var í hlutverkaleiki og fékk hver nemandi spjald með nafni þess þingmanns sem hann átti að leika og eins var búið að útbúa ræður fyrir þá til að flytja. Nemendur fengu líka að semja sínar eigin ræður og flytja þær við púlt.

Þess má geta að báðir hópar völdu að fjalla um herskyldu. Fluttar voru breytingartillögur t.d. um atvinnuher án herskyldu eða að íslenskum ríkisborgurum sé bannað að vera í her.

Á dagskrá síðasta þingfundar var: undirbúningur hjá þingflokkum, umræður í þingsal og atkvæðagreiðsla.

Þessi ímyndaði veruleiki var vel undirbúinn af fræðslufulltrúunum og skemmtilega fram settur. Nemendur tóku virkan þátt og virtust skemmta sér vel og auk þess fengu þeir innsýn í hvernig störfin á Alþingi ganga fyrir sig í raunverkuleikanum. Á ungmennavef.is er svo hægt að læra meira um störf Alþingis.

Það er alltaf gaman að sýna smá úr daglegu lífi nemenda okkar. Hér að neðan eru myndir frá 5.VG þar sem þau eru að útbúa kærleikskveðju í Bland í poka tíma hjá Gunnu Smára.

Í dag föstudaginn 18. október var bleikur dagur í skólanum, voru flest allir með eitthvað bleikt á sér eða með sér.

Að lokum minnum við á að það er vetrarfrí í skólanum okkar eftir helgi. Við hittumst hress og kát aftur í skólanum fimmtudaginn 24. október.