Öðruvísi öskudagur
Við í Nesskóla þurftum að laga okkur að breyttu landslagi vegna Covi19 og halda öskudaginn með breyttu sniði. Haft var samband við fyrirtækin í bænum og voru allir til í að taka þátt í því að koma namminu á staðinn til okkar. Stigin ákváðu svo að gera ýmislegt skemmtilegt með krökkunum í tilefni dagsins og gekk það framar öllum vonum!
Yngsta stigið fór niður á leikskóla og söng nokkur lög þar og vinkuðu litlu krökkunum. Síðan var farið upp á HSA og sungið þar. Þá var farið og spriklað í íþróttahúsinu, farið í Ásadans, spila og boltaleiki þegar í skólann var komið var farið í osmo, just dance og horft á mynd. Krakkarnir fengu að borða popp og drekka safa með en allt nammið fer heim og verður vonandi ekki borðað fyrr en um helgi. Hér má sjá nokkrar myndir frá yngsta stigi!
Miðstigið ákvað að búa til stöðvar þar sem var einhver tenging í öll fyrirtækin sem tóku þátt í öskudeginum með okkur! Þetta voru 6 stöðvar og u.þ.b. 35 fyrirtæki! Á stöðvunum var t.d. giskað á bátanöfn, gínur fléttaðar, sundtökin tekin, dekkjahlaup, smíðað, farið í kahoot, greint sýni, smökkun og ýmislegt fleira skemmtilegt. Fyrirtækin fá síðan sent myndband frá okkur sem þakklætisvott þar sem þau geta séð hvað við vorum að bralla þennan dag í staðinn fyrir að koma til þeirra að syngja. Dagurinn endaði síðan í heimastofu þar sem allir fengu popp, snakk eða harðfisk og tóku á móti namminu frá fyritækjunum. Takk kærlega fyrir okkur! Hér má sjá fullt af skemmtilegum myndum.
Á unglingastiginu brugðum við á það ráð að skipta stiginu í þrennt og íþróttasalnum líka. Þar vorum við í blaki, körfuboltaleikjum og barnaleikjum eins og Tansí tansí, Köttur og mús og Hlaupa í skarðið fyrstu tvær kennslustundirnar. Krakkarnir voru alveg til í að ærslast og gleðin skein af hverju andliti. Næstu tvær kennslustundir héldum við hópunum til að byrja með og sömdum nýja texta við lagið um Bjarnastaðarbeljurnar. Við tókum textana svo upp til að senda fyrirtækjum bæjarins þakkir fyrir að gefa okkur nammi. Fyrirtækin glöddu krakkana mikið með því að senda okkur sælgæti, popp, harðfisk, ávaxtadrykki og kleinuhringi. Hér má sjá nokkrar myndir.
Allir voru ánægðir með breytingu dagsins og héldu heim í sykurvímu.
Við í Nesskóla viljum þakka fyrirtækjunum í Neskaupstað kærlega fyrir þátttökuna og fljótlega fá þau send myndbönd frá deginum okkar!