Skóli hefst á mánudag

Nú þegar skóli hefst að hausti er nauðsynlegt að rifja upp þær umferðarreglur varðandi reiðhjólanotkun grunnskólabarna. 

Hjólum skal leggja í hjólagrindur eða við grindverk og læsa. Hjólin má ekki nota á skólatíma. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum og búnaði. Nauðsynlegt er að nemendur noti hjálma og eru foreldrar beðnir um að ganga eftir því við sín börn að það sé gert. Eins er mikilvægt að gá til veðurs og aðgæta færð og birtuskilyrði.
1. bekkur
Samkvæmt umferðarlögum mega börn yngri en 7 ára ekki hjóla ein á akbraut. Þar af leiðandi getur skólinn ekki mælt með að nemendur í fyrsta bekk komi á hjóli í skólann nema í fylgd fullorðinna.
2. – 4. bekkur
Nemendum í þessum bekkjum er heimilt að hjóla í skólann samkvæmt umferðarlögum. Æskilegt er að yngri nemendur séu í fylgd eldri einstaklinga. Ákvörðun er foreldra og á ábyrgð þeirra.
5. – 10. bekkur
Nemendum í þessum bekkjum er heimilt að koma á hjólum í skólann. Reiðhjólum skal leggja í hjólagrindur eða við grindverk og læsa. Reiðhjólin má ekki nota á skólatíma (á einnig við um frímínútur). Nemendum er þó heimilt að nota hjólin til að fara til og frá sundlaug. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum.

Hafa ber í huga að flest börn yngri en 10 ára:

  • Hafa ekki náð fullkomnu valdi á grófhreyfingum og samhæfingu vantar í hreyfingar.
  • Hafa ekki fullþroskað jafnvægisskyn og hliðarsýn.
  • Skynja ekki hraða og fjarlægð ökutækja sem nálgast eða úr hvaða átt hljóð kemur.
  • Eiga oft erfitt með að einbeita sér að fleiru en einu atriði í einu.
  • Eiga það til að taka ákvarðanir í skyndi án þess að hugsa um afleiðingarnar.
  • Yngri börn en 10 ára hafa því ekki nægilegan þroska til að vera fullkomlega ábyrgir vegfarendur.

Mikilvægt er að öll börn séu með hjálm og eru foreldrar beðnir um að ganga eftir því við sín börn að fara eftir þeim tilmælum sjá reglurgerð um notkun á hlífðarhjálmum við hjólreiðar fyrir börn undir 15 ára aldri: https://www.samgongustofa.is/media/log-og-reglur-i-umferdarmalum/631_1999.pdf.