Þemadagar Nesskóla: Íslensk tunga í forgrunni

Þemadagar Nesskóla stóðu yfir í vikunni með áherslu á íslenska tungu. Nemendur og kennarar lögðu metnað í fjölbreytta og skapandi vinnu sem sýndi íslenska menningu og tungu í ýmsu ljósi.

Fjölbreytt dagskrá og sköpun

Á þemadögunum unnu nemendur að ýmsum verkefnum sem sköpuðu líf og fjör innan skólans. Nemendur söfnuðu saman íslenskri tónlist og bjuggu til Spotify spilunarlista sem náði yfir ýmis tímabil. Götuljóð voru sköpuð, bærinn teiknaður upp og hús mynduð sem síðan voru límd á kort. Nýyrði og slangur notuð í allskonar myndböndum og umr´æðu. Búnir til upphafsstafir úr pípuhreinsurum og klipptum rörum. Einnig voru gerð veggspjöld þar sem nokkrir textahöfundar frá Norðfirði voru kynntir, farið var í Kappsmál og búin til Kahoot-leikur um íslenska tungu. Bókamerki og form voru klippt út og lituð með fallegum kærleikskveðjum sem dreift var um bæinn. Því miður náðist ekki að gera í öll hús bæjarins og fengu því færri en vildu.

Í ár tók elsta deild leikskólans Eyrarvalla þátt í þemaviku Nesskóla. Þátttaka þeirra er partur af svokallaðri Brú, sem er samvinna skólastiganna. Það samstarf hófst á síðastliðnu skólaári. Leikskólabörnin dreifðust á milli hópa á yngsta stigi og tóku fullann þátt í verkefnavinnunni. Verkefni eftir þau voru því einnig til sýnis í stofum og göngum skólans. Vikan með leikskólabörnunum gekk virkilega vel og vonumst við til að samstarfið haldi áfram næstu árin.

Opið hús og hátíðardagskrá

Þemadögunum lauk með opnu húsi og sýningu þar sem gestir fengu að njóta afraksturs vikunnar. Á sal var haldin hátíðardagskrá þar sem Jónas Hallgrímsson og Dagur íslenskrar tungu voru í öndvegi. Nemendur úr 8. bekk lásu úr óútgefinni bók Ævars Þórs Benediktssonar, *Skólastjórinn*, sem hann hafði sérstaklega sent skólanum við þetta tilefni. Einnig var lesið ljóð eftir Norðfirðinginn Jón Knút Ásmundsson.

Hefðinni samkvæmt lásu nemendur í 8. bekk á sal og afhentu Stóru upplestrarkeppnina formlega til 7. bekkjar.

Nemendur á yngsta stigi fluttu svo lagið *Krummi svaf í klettagjá* í keðjusöng og *Gamla Nóa*, með undirspili á tónrör sem þau höfðu lært að nota í vikunni. Dagskráin á sal endaði á sameiginlegum flutningi allra á laginu *Gull og perlur* með undirspili frá Guðrúnu Árný tónlistarkonu.

Notalegur lokadagur

Að loknum viðburðaríkum dögum fengu nemendur og starfsfólk notalegan lokadag þar sem flestir nutu þess að vera með vasaljós á myrkvuðum göngum skólans. Náttfatastemning var í húsinu og almenn huggulegheit. Þetta skapaði einstaka stemningu og skemmtilegan endi á vel heppnuðum þemadögum.

 

Við þökkum öllum sem tóku þátt og lögðu sitt af mörkum fyrir frábæra viku og eins þökkum við öllum okkar fjölmörgu gestum fyrir komuna.

Myndir frá vikunni má finna hér. Góð helgi!