Vikupóstur

Vikupósturinn er að þessu sinni tveggjavikupóstur sem gæti gerst af og til. 

Til að byrja með þá er verið að vinna að meira samstarfi milli leik- og grunnskóla og koma núna í hverri viku nemendur frá leikskóla í heimsókn til okkar og á móti fara nemendur frá okkur niður á leikskóla. Köllum við þetta samstarf Brúin þennan veturinn, hver veit nema að það komi annað heiti á verkefnið seinna meir. Með þessu er von okkar að tilvonandi nemendur verði orðin vön skólanum þegar þau koma uppeftir til okkar og nemendur í 1.bekk haldi smá tengingu við leikskólann á móti. Erum við gríðarlega ánægð með þetta samstarf sem hefur verið lengi á milli skólana og enn ánægðari með breytinguna sem orðin er í vetur. Við leyfum ykkur að fylgjst með þessu verkefni af og til í vetur. 

Smíðastofan okkar tók breytingum í sumar og er sú vinna enn í gangi. Þar af leiðandi þá hefur smíðakennslan farið fram í öðrum rýmum skólans og úti. Aneta sem kennir smíðar í 6.HB í vetur sendi okkur myndir frá smíðakennslunni í vikunni, en þau fóru út og upp í skógrækt að vinna. 

 Í vikunni fór fram Forvarnarmálþing VA sem að þessu sinni var á fimmtudegi í Egilsbúð. Yfirskrift málþingsins þessu sinni var „Líður fólki vel í kringum mig?“ Fyrirlesarar eru þau Þorsteinn V. Einarsson frá Karlmennskunni og Benedikta Sörensen frá Ofbeldisvarnarskólanum. Þau eru bæði þrautreyndir fyrirlesarar. Forvarnarteymi VA hefur staðið fyrir árlegum málþingum fyrir nemendur og almenning í rúmlega 10 ár og hafa þau verið vel sótt. Markmiðið með málþingunum er að vinna að bættu samfélagi og lífsgæðum allra og endurspegla þemu þeirra það.

Sama dag fengu 10.bekkir Fjarðarbyggðar einni fræðslu frá VR en þetta er nemendum að kostnaðarlausu. Í kynningunni er farið yfir helstu grunnþætti sem mikilvægt er að ungt fólk þekki þegar það fer út á vinnumarkaðinn eins og kjarasamninga, launataxta og veikindarétt svo fátt eitt sé nefnt. Þá er mikilvægt að unga fólkið sé meðvitað um hvaða hlutverki stéttarfélögin gegna og þjónustuna sem þau veita.

Miðvikudaginn 4.október tók 9.SJG þátt í forvarnardeginum en hann fór að öllu leiti fram á netinu. 

Í dag, föstudag, bauð foreldrafélag Nesskóla nemendum uppá fræðslu frá ofbeldisforvarnarskólanum.

Í fræðslunni verður farið yfir það hvað er ofbeldi?
Hverjar geta afleiðingar ofbeldis verið?
Hvað getum við gert sem samfélag/hópur til þess að koma í veg fyrir ofbeldi?

Fræðslan var miðuð að hvaða stigi fyrir sig og farið var yfir málefnið eftir því sem hæfir aldri.

Eftir hádegi fengu svo nemendur á yngsta stigi orgeltónleika í kirkjunni. Komu þá allir nemendur og starfsfólk á yngstastigi saman í kirkjunni þar sem þau fengu smá sögustund og svo tónleika þar sem spilað var á pípuorgelið. Helga Ingibjörg umsjónakennari í 4.HIG sendi okkur myndir frá þeirri stund.

 

Að lokum minnum við á að það er starfsdagur á mánudaginn svo við hittum krakkana eldspræk þriðjudaginn 10.október.