Vikupósturinn

Hópmynd af öllum í Nordplusverkefninu eftir hreinsun á einni strönd á Fanö.
Mynd: Åsger Lind
Hópmynd af öllum í Nordplusverkefninu eftir hreinsun á einni strönd á Fanö.
Mynd: Åsger Lind

Í vikunni fengum við aðra skemmtilega heimsókn í skólann. Jón Aðalsteinn Jónsson kom færandi hendi með ála fyrir krakkana að sjá. Alli á Ormstöðum veiðir þá í Kýlnum vestan við flugvöllinn. Hann veiðir þá í álagildrur, ekki til manneldis, heldur hefur hann bara mikinn áhuga á þeim og þeirra högum. Álarnir eru þó ekki í boxi í langan tíma heldur er þeim sleppt aftur. Hann hefur komið áður í skólann til að sýna krökkunum þá við mikinn áhuga þeirra. Álar eru magnaðar skeppnur sem geta skotist á milli skurða í röku grasinu. Þökkum við Alla kærlega fyrir heimsóknina og leyfa okkur að sjá þessi mögnuðu dýr. Hægt er að sjá myndir af 8.SHÁ og 9.SJG sem Sunna Björg raungreinakennari tók hérna

Nemendur í 10.VG eru búin að vera í Nordplus verkefni síðan haustið 2022 sem heitir A greener future. Eru þau í verkefni með Aura skolen Bryndum í Esbjerg Danmörku og hafa þau verið í samskiptum síðan verkefnið byrjaði. Í vor tóku þau á móti nemendum frá Danmörku en núna var komið að þeim að fara til Danmerkur. Fóru þau suður sunnudaginn 10.september og koma aftur til Neskaupstaðar þriðjudaginn 19. september. Verkefnið fjallar um hvað við getum gert til að stuðla að grænni framtíð með meiri sjálfbærni að leiðarljósi. Hafa þau fræðst um hvað hægt er að nýta úr náttúrunni og elduðu meðal annars mat úr náttúrulegum afurðum ásamt því að læra um hversu mikilvægt er að halda vel utan um allskyns ræktun eins og ræktun trjáa. Lærðu þau um vindmyllur, enda er Esbjerg þekkt fyrir þær og fengum við að skoða atvinnusvæðið þar sem þau geyma varahluti í myllurnar. Var tekin ein hópmynd við væng sem er um 87 metra langur og er notaður í vindmyllu sem er talin vera lítil, með framleiðslu á 8 mW rafmagni.

Fengum við að skoða elsta bæ Danmerkur, Ribe, en hann var byggður af víkingum og hefur verið byggð þar síðan. Fórum við einnig út í eyjuna Fanö, sem er rétt fyrir utan Esbjerg. Þar ganga ferjur á milli reglulega allan sólahringinn. Fanö er þekkt fyrir fallega bæi, sjálfbærni og framsækni í náttúruvernd. Fengum við fyrirlestur um hvað rusl getur skaðað sjávarlíf og tókum við þátt í því verkefni með því að tína rusl á þeirra fallegu ströndum.

Síðar fengum við svo fræðslu um bæinn Nordby þar sem þau fræddu okkur um hvað þau eru að gera til að verða vistvænni. Þau eru meðal annars að hugsa um að hafa bílalausa viku, veitingastaðir nota aðallega hráefni sem kemur úr nærumhverfinu, þar á meðal kjöt.

Gaman að segja frá því að við borðuðum hamborgara á Fanö sem voru eingöngu gerðir úr hráefnum frá eyjunni. Það má einnig minnast á það að Fanö er mjög viðkvæm fyrir loftlagsbreytingum þar sem því fylgir hækkandi sjávarmál og því fylgir að það flæðir inn á eyjuna. Hefur það gerst nokkrum sinnum og eru þau því að huga að nýjum sjávargarði sem vonandi verndar staðinn aðeins meir fyrir flóðum.

Í dag föstudag er útskrift, smá íþróttakeppni og eftir það verður farið til Billund sem við eigum frjálsan dag. Ætlum við að nýta tímann sem eftir er af ferðinni í Billund fara í skemmtigarða og mögulega skreppa til Vejle þar sem er smá verslunarmiðstöð og mjög fallegt bæjarstæði. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni hérna. En hægt verður að sjá fleiri á heimasíðunni þeirra sem þau halda úti á meðan á verkefninu stendur, mælum við með fyrir áhugasama að fylgjast með henni hérna. Allar upplýsingar um myndirnar og texti er í "highlights" á Instagram síðu Nesskóla.

Í lok vikunnar var eins og þið vitið fyrsti starfsdagur vetrarins þar sem kennarar og starfsfólk fór á Reyðarfjörð þar sem KSA skipulagði  fræðslu og málstofur. Er þetta hluti af endurmenntun kennara sem er mikilvægur þáttur í starfi þeirra. Þökkum við skipuleggjendum fyrir frábæran dag og vinnu fyrir þingið í ár.